Í sumar þá ferðumst við innanlands enda er tækifærið núna. Sjaldan hafa verið svo margir möguleikar í boði hér í Eyjum, núna eingöngu fyrir íslendinga að nýta og njóta og til að losa aðeins um daglega lífið frá gömlu góðu norðureyjunni.
Sumrin í Vestmannaeyjum eru hreint út sagt stórkostleg og viðburðarrík.
Þá höldum við Sjómannadaginn, TM- mótið, Beer and Streetfood festival, The Puffin Run, Orkumótið, Goslokahátíð og auðvitað þjóðhátíð. Þjóðhátíðin er að vísu ekki formlega staðfest þegar þessi orð eru skrifuð en bara með því að koma til Eyja þá getur þú haldið þína eigin þjóðhátíð, á hverjum degi, allan ársins hring.
Það jafnast ekkert á við að sigla með Herjólfi inn í hafnarmynnið og finna tilfinninguna að vera komin í annan heim. Þegar stigið er frá borði er strax kominn fiðringur í magann yfir öllu sem eftir á að gera.
Byrja daginn á að kaupa eitthvað gott í bakaríinunum Vigtin Bakhús eða Eyjabakarí. Ganga svo um fallega bæinn okkar, endurlifa stemningu og minningar Herjólfsdals, skoða söfnin, ganga á fell og klífa kletta. Fjölbreytt fugla- og dýralíf má finna um alla eyjuna. Allt árið um kring eru listasýningar á hverju strái og svo er metnaðarfullt kvikmyndahús í eyjum. Þá má nefna Leikfélag Vestmannaeyja sem heldur úti öflugu starfi.
Söfnin í Eyjum eru Beluga Whale Sanctuary, Ljósmyndasafn Vestmannaeyja, Eldheimar, Bókasafnið, Héraðsskjalasfnið og Sagnheimar byggðasafn eru opin allt árið um kring.
Það jafnast ekkert á við að sigla með Herjólfi inn í hafnarmynnið og finna tilfinninguna að vera komin í annan heim.
Nóg um að vera fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum. Glæsilegt handboltamót yngri flokka er haldið hvern vetur og svo stóru fótboltamótin á sumrin. Í Vestmannaeyjum eru flott meistaraflokkslið í hand- og fótbolta. Hægt að finna leiki nánast í hverri viku, allt árið um kring.
Eins og góðu bæjarfélagi sæmir höfum við sundlaug. Sundlaug Vestmannaeyja er ekki af verri endanum. Glæsilegt sundsvæði með 25 metra innilaug og flottu útisvæði. Vatnsgufa, heitir pottar, leiklaug, sólbaðslaug og 3 rennibrautir.
Matvöruverslanirnar Krónan og Bónus sjá um að allir fái nauðsynjavörur. Bensínstöðvarnar ÓB, Orkan og N1 sjá um að fæða bílinn. Fjöldi hleðslustöðva fyrir rafbíla má kvarta smá yfir, en það jákvæða er að ein þeirra er ókeypis og full af stuði.
Á sumrin blómstrar lífið á golfvellinum sem er einhver sá glæsilegasti á landinu. Þó er hægt að spila á honum meira og minna allt árið. Fyrir meira sprikl má ganga um alla eyjuna, leigja hjól og njóta útiverunnar. Þeir sem vilja aðeins meira fjör fara á fjórhjól, í bátsferðir eða sigla um á kajak.
Ljúkið svo hverjum degi með að borða frábæran mat á einu af margrómuðu veitingahúsum eyjunnar. Einsi kaldi, Gott, 900 Grillhús, Tanginn, Canton Chinese, Kráin, Slippurinn, Pítsugerðin, Pizza 67, Klettur, Tvisturinn og nýjasta viðbótin Éta.
Hvernig væri svo að enda kvöldið með pöbbarölti. Sérstaklega nefnum við ölstofuna The Brothers Brewery. Frábær ölstofa þar sem gestir geta smakkað bjór beint úr eigin framleiðslu. Þeir eru mjög duglegir að trekkja að með ýmsum viðburðum. Magnað á ekki stærri stað.
…þá getur þú haldið þína eigin þjóðhátíð, á hverjum degi, allan ársins hring
Það er alltaf eitthvað í gangi í menningalífi Vestmannaeyja. Starfandi eru þrír fjölmiðlar, Eyjafréttir, Tígull og Eyjar.net. Næstum því einn miðill á haus. Í þessum miðlum eru daglega uppfærðar upplýsingar um allt það sem er hægt að gera og sjá.
Í Vestmannaeyjum eru ýmsir gistimöguleikar í boði. Allir frábærir, hver á sinn hátt. Allt frá fínu hóteli niður í kósý smáhýsi. Svo eru tvö tjaldsvæði í boði fyrir ferðahýsaeigendur.
Gistihúsið Hóll býður ykkur að koma og gista í miðbæ Vestmannaeyja á sanngjörnu verði.