Herbergin okkar og aðstaða

Herbergi Hóll Guesthouse

Ertu ekki viss hvaða herbergi hentar þér? Okkur langar að sýna ykkur herbergin okkar á Hóli og kynna fyrir ykkur hvað er í boði í hverju herbergi fyrir sig.

Húsið er gamalt virðulegt hús, byggt í Vestmannaeyjum 1908. Án þess að fara í algjörar breytingar innan og utanhúss þá höfðum við takmarkað frelsi í skipulagi herbergja. Fyrst má nefna að það er steyptar tröppur upp að aðalinngang og svo nokkuð brattur stigi upp á aðra hæð. Svo má nefna að minni herbergin eru bara lítil og kósý, kring um 9 fermetrar hvert. Að gista á Hóli hentar því ekki öllum.

Gistirými Hóls er hannað með ýtrustu brunavarnir að leiðarljósi. Öflugt brunakerfi er í húsinu.

Gæludýr eru velkomin á Hól!


Herbergin á Hóli eru fimm.
Tvær íbúðir (númer 4 og 5) eru með sér baðherbergi og þrjú herbergi (númer 1, 2 og 3 sem nýta sameiginlegt baðherbergi. Íbúðirnar tvær og eitt herbergjanna er á annarri hæð.

Tvö herbergi og sameiginlega baðherbergið eru á fyrstu hæð. Þar er einnig inngangurinn inn á gistiheimilið.

Gistihúsið Hóll neðri hæð

Herbergi 1 | HáHá
Mjög kósý tveggja manna herbergi til vinstri á fyrstu hæð, með sameiginlegu baðherbergi. Þægilegar SIMBA dýnur. Hverju herbergi fylgja rúmföt og handklæði. Inn á herberginu er nettengt sjónvarp, vaskur, kælir, teketill og Nespresso kaffivél. Hægt er að panta loftnet fyrir opnar sjóvarpsútsendingar.
Nafnið á herberginu er fengið frá Háinni sem sést frá herberginu. „Há“ er heildarheiti yfir allt fjallið sem stendur austan við Herjólfsdal. Há-há er þá auðvitað, eins og nafnið bendir til, hæsti hluti fjallsins, og stendur um 220m yfir sjávarmáli.

Þú getur bókað herbergi #1 hér.


Herbergi 2 | Stóra Klif
Snyrtilegt tveggja manna herbergi á fyrstu hæð til hægri, með sameiginlegu baðherbergi. Þægilegar SIMBA dýnur. Hverju herbergi fylgja rúmföt og handklæði. Inn á herberginu er nettengt sjónvarp, vaskur, kælir, teketill og Nespresso kaffivél. Í þessu herbergi er lítil geymsla undir stiganum fyrir töskur sem gerir þetta minnsta herbergi hússins í raun mikið stærra. Hægt er að panta loftnet fyrir opnar sjóvarpsútsendingar.
Nafnið á herberginu er fengið frá Klif er sem samheiti yfir tvö fjöll sem standa í norðurklettum Heimaeyjar, Stóra-Klif og Litla-Klif. Stóra-Klif er norðar og austar en Litla-Klif. Það er líka hærra og þverara, eins og nafnið gefur til kynna. Á Stóra-Klifinu eru nánast öll helstu fjarskiptamöstur Vestmannaeyja þannig að ef þú sérð Klifið þá er síminn þinn í góðum málum.

Þú getur bókað herbergi #2 hér.


Herbergi 3 | Heimaklettur
Snyrtilegt tveggja manna herbergi á annarri hæð til hægri, með sameiginlegu baðherbergi. Þægilegar SIMBA dýnur sem stendur upp við vegg. Hverju herbergi fylgja rúmföt og handklæði. Inn á herberginu er nettengt sjónvarp, vaskur, kælir, teketill og Nespresso kaffivél. Hægt er að panta loftnet fyrir opnar sjóvarpsútsendingar.
Nafnið á herberginu er fengið frá hinum títtnefnda Heimaklett sem sést vel út um glugga herbergisins. Heimaklettur er hæsta fjall Vestmannaeyja, 279 m á hæð yfir sjávarmáli. Kletturinn er móbergsstapi sem varð til við gos undir jökli seint á síðustu ísöld. Hann stendur sæbrattur upp úr sjónum, en efst eru grasi vaxnar brekkur á bólstrabergstoppi þar sem fé er haft á beit.

Þú getur bókað herbergi #3 hér.


Herbergi 4 | íbúð | Eldfell
Lítil og sæt íbúð með svefnsófa og fullbúnu baðherbergi. Rennihurð á svefnherbergi. Hentar vel fyrir smærri fjölskyldur þar sem svefnsófinn er lítill. Þægilegar SIMBA dýnur í svefnherbergi. Í íbúðinni er nettengt sjónvarp, ísskápur með frystihólfi, teketill og Nespresso kaffivél. Frítt WiFi. Hverju herbergi fylgja rúmföt og handklæði. Hægt er að panta loftnet fyrir opnar sjóvarpsútsendingar.
Nafnið á herberginu er fengið frá Eldfelli sem blasir við gestum er horft er út um glugga íbúðarinnar. Eldfell er eldfjall sem myndaðist í Heimaeyjargosinu árið 1973, og er þar með yngsta fjall Íslands. Það er um 131 metra hátt og stendur austan við Helgafell.

Þú getur bókað herbergi #4 hér.


Herbergi 5 | íbúð | Helgafell
Rúmgóð og falleg stúdío íbúð með fullbúnu baðherbergi og eldhúsi (engin eldavél). Hentar vel fyrir þá sem þurfa nóg af plássi. Svefnsófi í stofu. Svalir snúa út að hafnarsvæði. Þægilegar SIMBA dýnur. Í íbúðinni er nettengt sjónvarp, kælir með frystihólfi, teketill og Nespresso kaffivél. Hverju herbergi fylgja rúmföt og handklæði. Hægt er að panta loftnet fyrir opnar sjóvarpsútsendingar.
Nafn íbúðarinnar kemur frá Helgafelli sem er 226 metra hátt eldfjall suðaustan á Heimaey. Helgafell gaus síðast fyrir um fimm þúsund árum. Fullvíst er talið, að gos úr fellinu hafi tengt saman Norðurklettana, Dalfjall og Stórhöfða og myndað Heimaey eins og við þekkjum hana í dag. Kaupstaðurinn stendur allur á Helgafellshrauni, sem ber þó mörg nöfn, t.d. Agðahraun og Strembuhraun.

Þú getur bókað herbergi #5 hér.


Andar Ágústu og Jes guðsmanns sem byggðu Hól 1908 svífa yfir öllu. Virkilega góður andi.

Þú getur bókað allt húsið í einu hjá okkur hér. 5 herbergi, 10 manns á einum stigagangi. Skemmtileg lausn fyrir lítil ættarmót.

Verið velkomin á Hól.

Hálfa leið til útlanda :)

Í sumar þá ferðumst við innanlands enda er tækifærið núna. Sjaldan hafa verið svo margir möguleikar í boði hér í Eyjum, núna eingöngu fyrir íslendinga að nýta og njóta og til að losa aðeins um daglega lífið frá gömlu góðu norðureyjunni.

Sumrin í Vestmannaeyjum eru hreint út sagt stórkostleg og viðburðarrík.

Þá höldum við Sjómannadaginn, TM- mótið, Beer and Streetfood festival, The Puffin Run, Orkumótið, Goslokahátíð og auðvitað þjóðhátíð. Þjóðhátíðin er að vísu ekki formlega staðfest þegar þessi orð eru skrifuð en bara með því að koma til Eyja þá getur þú haldið þína eigin þjóðhátíð, á hverjum degi, allan ársins hring.

Það jafnast ekkert á við að sigla með Herjólfi inn í hafnarmynnið og finna tilfinninguna að vera komin í annan heim. Þegar stigið er frá borði er strax kominn fiðringur í magann yfir öllu sem eftir á að gera. 

Byrja daginn á að kaupa eitthvað gott í bakaríinunum Vigtin Bakhús eða Eyjabakarí. Ganga svo um fallega bæinn okkar, endurlifa stemningu og minningar Herjólfsdals, skoða söfnin, ganga á fell og klífa kletta. Fjölbreytt fugla- og dýralíf má finna um alla eyjuna. Allt árið um kring eru listasýningar á hverju strái og svo er metnaðarfullt kvikmyndahús í eyjum. Þá má nefna Leikfélag Vestmannaeyja sem heldur úti öflugu starfi.

Söfnin í Eyjum eru Beluga Whale Sanctuary, Ljósmyndasafn Vestmannaeyja, Eldheimar, Bókasafnið, Héraðsskjalasfnið og Sagnheimar byggðasafn eru opin allt árið um kring.

Það jafnast ekkert á við að sigla með Herjólfi inn í hafnarmynnið og finna tilfinninguna að vera komin í annan heim.

Nóg um að vera fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum. Glæsilegt handboltamót yngri flokka er haldið hvern vetur og svo stóru fótboltamótin á sumrin. Í Vestmannaeyjum eru flott meistaraflokkslið í hand- og fótbolta. Hægt að finna leiki nánast í hverri viku, allt árið um kring.

Eins og góðu bæjarfélagi sæmir höfum við sundlaug. Sundlaug Vestmannaeyja er ekki af verri endanum. Glæsilegt sundsvæði með 25 metra innilaug og flottu útisvæði. Vatnsgufa, heitir pottar, leiklaug, sólbaðslaug og 3 rennibrautir.

Matvöruverslanirnar Krónan og Bónus sjá um að allir fái nauðsynjavörur. Bensínstöðvarnar ÓB, Orkan og N1 sjá um að fæða bílinn. Fjöldi hleðslustöðva fyrir rafbíla má kvarta smá yfir, en það jákvæða er að ein þeirra er ókeypis og full af stuði.

Á sumrin blómstrar lífið á golfvellinum sem er einhver sá glæsilegasti á landinu. Þó er hægt að spila á honum meira og minna allt árið. Fyrir meira sprikl má ganga um alla eyjuna, leigja hjól og njóta útiverunnar. Þeir sem vilja aðeins meira fjör fara á fjórhjól, í bátsferðir eða sigla um á kajak.

Ljúkið svo hverjum degi með að borða frábæran mat á einu af margrómuðu veitingahúsum eyjunnar. Einsi kaldi, Gott, 900 Grillhús, Tanginn, Canton Chinese, Kráin, Slippurinn, Pítsugerðin, Pizza 67, Klettur, Tvisturinn og nýjasta viðbótin Éta.

Hvernig væri svo að enda kvöldið með pöbbarölti. Sérstaklega nefnum við ölstofuna The Brothers Brewery. Frábær ölstofa þar sem gestir geta smakkað bjór beint úr eigin framleiðslu. Þeir eru mjög duglegir að trekkja að með ýmsum viðburðum. Magnað á ekki stærri stað. 

…þá getur þú haldið þína eigin þjóðhátíð, á hverjum degi, allan ársins hring

Það er alltaf eitthvað í gangi í menningalífi Vestmannaeyja. Starfandi eru þrír fjölmiðlar, Eyjafréttir, Tígull og Eyjar.net. Næstum því einn miðill á haus. Í þessum miðlum eru daglega uppfærðar upplýsingar um allt það sem er hægt að gera og sjá.

Í Vestmannaeyjum eru ýmsir gistimöguleikar í boði. Allir frábærir, hver á sinn hátt. Allt frá fínu hóteli niður í kósý smáhýsi. Svo eru tvö tjaldsvæði í boði fyrir ferðahýsaeigendur. 

Gistihúsið Hóll býður ykkur að koma og gista í miðbæ Vestmannaeyja á sanngjörnu verði.

Velkomin til Vestmannaeyja
– Heill heimur að heiman.